headerphoto

Velkomin á síðu Parísardömunnar, Kristínar Jónsdóttur.

Kæru Parísarfarar athugið: VARIST SVIKAHRAPPA!
Ýmsar leiðir eru farnar til að svíkja fé út úr grandalausu fólki. Flestir kannast við „gullhringjatrikkið“ sem hefur mikið verið notað í gegnum árin: gullhringur „finnst“ á götu af tveimur í einu, þér og hinum, sá segist trúar sinnar vegna ekki mega hirða hann, en býður þér að borga fyrir helminginn, tja, 20 evrur eða svo. Margir hafa fallið fyrir þessu, hringurinn er vitanlega úr glópagulli, en 20 evrur er nú eiginlega bara smápeningur, svo fólk jafnar sig fljótt. Nýjasta trikkið er öllu verra - lesið um það hér neðar á síðunni.

PARÍSARDAMAN TEKUR VIÐ PÖNTUNUM Í FERÐIR:

Hér eru upplýsingar um sögugöngur mínar um París, leiðalýsingar og dagskrá. Gönguferðirnar taka um 2 1/2 til 3 klst og allar ferðir þarf að panta.

Hafið samband til að panta ferð, hikið ekki við að biðja um daga sem ykkur henta, og fá nánari upplýsingar. París er skemmtileg alla daga og Parísardaman er tiltæk í ferðir næstum hvenær sem er.

Ferð fyrir einn til tvo fullorðna kostar 30 evrur á mann. Ef þátttakendur eru fleiri, lækkar verðið strax niður í 25 evrur á mann. 16-20 ára: 15 evrur, ókeypis fyrir börn yngri en 16 ára. Parísardaman auglýsir ferðirnar um leið og pöntun berst, þannig að meiri líkur eru á að ná verðlækkun ef pantað er með góðum fyrirvara. - Sértilboð fyrir hópa.

Smáauglýsingasíðan tekur við auglýsingum um íbúðir til leigu í París eða annað sem við kemur ferðum til eða frá Frakklandi. Auglýsingarnar eru ókeypis. Til að koma að auglýsingu hafið samband : parisardaman hja gmail.com

Ekki hika við að senda mér tölvupóst ef einhverjar spurningar vakna. Og ekki hika við að ítreka póstinn ef ég svara ekki fljótt og ef auglýsingar birtast ekki.


Parísardaman er á facebook.


MIÐASÖLUSVIKARAR Á LESTARSTÖÐVUM


Þegar túristar koma í fyrsta skipti á lestarstöð í París, þarf að kaupa miða í lestirnar. Nú hafa vélar yfirtekið nánast alla afgreiðslu og margir hafa farið flatt á því að leyfa „starfsmanni“ að aðstoða sig við að kaupa miða. Hann er oftast frekar góðlegur, vel greiddur og með einhvers konar nafnspjald fest í jakkann sinn. Þau tvö sem hafa sagt mér frá, tala um augnablikið þegar þau fundu á sér að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera, en þau gátu samt ekki trúað því upp á þennan ofur góðlega og viðkunnalega mann að hann væri svikahrappur.

Svona gengur þetta fyrir sig: Hann sannfærir þig um að erlenda greiðslukortið virki ekki í vélunum (það er rangt!) og býðst til að nota sitt kort. Hann kaupir svo þennan túristapassa fyrir 3 eða 5 daga og þú sérð ekki betur en að hann hafi einmitt gert það. Svo farið þið í hraðbanka fyrir utan, þú tekur út pening og greiðir honum þessar hundrað, hundrað og þrjátíu evrur sem slíkir passar kosta samtals fyrir tvo. EN, hann lætur þig fá BARNAMIÐA EINA LEIÐ í staðinn. Þú borgar sem sagt rúmar hundrað evrur fyrir miða sem kostar rétt um eina evru.
EKKI LEYFA NEINUM AÐ SKIPTA SÉR AF ÞVÍ ÞEGAR ÞÚ KAUPIR MIÐANN. Vertu búin(n) að skoða fyrirfram hvað þú ætlar að kaupa. Veldu ensku á vélinni, ef þú ert ekki frönskumælandi. Farðu svo nákvæmlega eftir leiðbeiningum. Þegar kemur að því að borga með korti, færast leiðbeiningarnar niður á KORTAVÉLINA, það er þar sem birtist skipun um að slá inn pin-númer, EKKI Á STÓRA SKJÁNUM. Þar slærðu svo inn pin-númer og bíður og færð greiðsluna samþykkta og bíður eftir því að miðarnir prentist út. Ef einhver fer að skipta sér af, afþakkarðu mjög kurteislega. Ef manneskjan verður ágeng, þarftu annað hvort að vera mjög ákveðin(n) og skipa manneskjunni að hypja sig. Ef þú treystir þér ekki í það, skaltu bara hypja þig sjálf(ur).
París er troðfull af svikurum, en það er bara „eðlilegur“ (já, því miður) fylgifiskur allra vinsælla ferðamannastaða. Verið varkár, fylgið innsæinu og bakkið út úr aðstæðum í staðinn fyrir að láta glepja ykkur alla leið þvert á innsæið. Þessir hrappar eru snillingar í að hafa ykkur að leiksoppi, þið þurfið að reyna að vera sterkari en þeir. Umfram allt, varist að láta aðstæðurnar hlaupa upp í læti og slagsmál. Reyndar gerist það varla, því lestarstöðvar eru flestar myndaðar í bak og fyrir og hrapparnir vilja síst af öllu fá lögregluna á staðinn, þeir hypja sig því oftast ef þið eruð ákveðin og staðföst. Gangi ykkur vel!